Birki – Arinviður

kr.4.990

Birki frá Skógræktinni Egilstöðum.

Arinviður
Arinviður er fyrst nefndur í skýrslu skógarvarðar á Hallormsstað 1969. Þá eru skráð 35 tonn. Viðurinn var kurlaður í 30 sm langa búta og settur í strigapoka sem fengust frá kaffibrennslunum. Þeir voru reyndar óþægilega stórir og þungir. Um 1980 er farið að setja viðinn í grisjupoka, fyrst 20 kg í poka en á síðustu árum líka í 10 kg poka. Þá eru hafðir 30 sm bútar í stærri pokunum en 22 sm í þeim minni.
Árin 1956–1983 var viðurinn kurlaður með Ferguson hjólsög. Árið 1983 kom norska Dalen kurlsögin með sambyggðum viðarkleyfi. Frá þeim tíma hefur eingöngu verið settur klofinn viður í arinviðarpoka.
Arinviðarframleiðslan hefur frá 1980 verið skráð í fjölda poka. Hún var í fyrstu um 3.000 pokar á ári en fór upp undir 5.000 árið 1987. Á því róli var hún næstu árin en náði hámarki 1989 þegar framleiddir voru 6.700 pokar. Aukningin varð þegar pitsustaðir í Reykjavík fóru að baka við íslenskt birki. Þeim viðskiptum lauk að mestu um 1990 þegar rafmagnsofnar komu til sögunnar við baksturinn. Síðan hefur sala á arinviði verið 3.000-4.000 pokar.
Eftir að farið var að setja aðeins klofinn arinvið í pokana hefur einungis gildari hluti stofns verið notaður. Topparnir verða eftir úti í skógi með greinunum. Er það af hinu góða fyrir skóginn, sem fær þannig dálítinn hluta aftur inn í næringarhringrásina.